Huawei H158-381 er WiFi 6 5G netbeinir
Að tengja 5G CPE Pro 5 beininn
Það er einfalt að tengja netbeininn, helsta atriðið er að staðsetja hann vel. Netbeinirinn þarf að ná góðu sambandi við 5G senda og því best að staðsetja hann í glugga.
Einnig þarf að hugsa útí WiFi dreyfingu svo reyndu að koma honum fyrir þannig að hann geti sent út þráðlaust net hindranalaust. Þú getur kynnt þér hvernig þú hámarkar hraða og drægni á WiFi hér.
Mælum með að nota Huawei AI live appið til að finna bestu staðsetningu 5G beinis
Hægt er að nota Huawei AI live appið til að breyta flest öllum stillingum og finna bestu staðsetningu 5G beinis.
Settu upp Huawei AI life appið
Stöðuljósin á netbeininum
Framan á netbeininum eru ljós sem sýna stöðuna á honum.
Tengja tæki
Þú getur tengt tæki eins og tölvur, snjallsíma og sjónvörp við netið með snúru eða WiFi, en beinirinn býður upp á þrjár leiðir til að tengjast við WiFi; hefðbundið nafn og lykilorð, WPS eða QR kóða. Við mælum þó með að snúrutengja stærri tæki eins og tölvur og snjallsjónvörp þegar þú getur, því þannig færðu hraðasta og stöðugasta netsambandið.
Tengjast með snúru
Til að snúrutengja tæki við netbeininn þarftu einfaldlega að tengja netsnúru úr tækinu þínu LAN tengið aftan á netbeininum. Tengið merkt 2.5GB styður hraða allt upp að 2,5 Gb/s, en hitt tengið styður allt að 1 Gb/s hraða.
Tengjast WiFi með nafni og lykilorði
Upplýsingar um WiFi eru á límmiða undir netbeininum. WiFi nafnið er merkt Wi-Fi Name og lykilorðið til að tengjast við það er merkt Wi-Fi password. WiFi lykilorðið er blanda af hástöfum og tölustöfum.
Viltu breyta WiFi lykilorðinu?
Þú getur breytt bæði nafninu og lykilorðinu á WiFi netinu í Huawei AI live appinu eða í vefviðmóti netbeinisins.
Tengjast WiFi með WPS
Með WPS getur þú tengt tæki á WiFi án þess að nota lykilorðið. Netbeinirinn er þá settur í pörunarham og samþykkir tengingu frá fyrsta tæki sem reynir að tengjast við hann.
- Ýttu snöggt á WiFi / WPS takkann framan á netbeininum.
- Status ljósið byrjar að blikka þegar hann er kominn í pörunarham.
- Næsta skref fer eftir hvernig tæki þú ert að reyna að tengja:
- Ef þú ert að tengja tölvu eða snjalltæki þarftu að fara inn í WiFi stillingarnar og tengjast þar.
- Ef tækið er ekki með skjá ætti að vera svipaður WPS takki á því til að setja það í pörunarham.
- Eftir smá stund ættu tækið þitt og netbeinirinn að finna hvort annað og tengjast.
Tengjast WiFi með QR kóða
Flest nýleg snjalltæki sem eru með myndavél geta tengst WiFi með því að skanna QR kóða.
- Opnaðu myndavélina eða QR skanna app í tækinu þínu.
- Í sumum tækjum þarftu að fara inn í WiFi stillingarnar og velja að tengjast með QR kóða.
- Beindu myndavélinni að QR kóðanum sem er prentaður á límmiða undir netbeininum.
- Fylgdu leiðbeiningunum í tækinu þínu til að tengjast netinu.
Ítarlegar stillingar
Þú finnur stillingar fyrir WiFi lykilorð, foreldrastýringu og fleira á vefviðmóti netbeinisins eða í Huawei Ai Life appinu
Endurstilla netbeini (Factory reset)
Með því að endurstilla netbeininn hreinsar þú út allar stillingar og breytir þeim aftur í upprunaleg gildi. Til að endurstilla netbeininn þarftu að ýta á RESET takkann undir honum. Takkinn er felldur inn í beininn svo það sé ekki hægt að ýta á hann fyrir slysni, þannig að þú þarft pinna (til dæmis tannstöngul eða bréfaklemmu) til að ná í hann. Haltu takkanum inni í 10 sekúndur eða þar til Status ljósið framan á honum byrjar að blikka.