Reikningar frá okkur eru alfarið á rafrænu formi og kröfur birtast í heimabankanum þínum um það bil viku eftir mánaðamót. Þú getur nálgast afrit af reikningunum þínum á þjónustuvefnum okkar eða í Símaappinu.
Mikilvægar dagsetningar
Dagsetningar á reikningum geta verið ruglandi, en hér er það sem þú þarft að hafa í huga:
- Útgáfudagur er dagsetningin sem reikingurinn er gefinn út, en ekki dagurinn sem krafan birtist í heimabankanum þínum. Öll notkun og gjöld eftir þessa dagsetningu birtast á reikningi eftir næstu mánaðamót. Ef þú leigir til dæmis bíómynd í Síminn Bíó þann 1. mars, þá kemur hún ekki fram á reikningi fyrr en í byrjun apríl.
- Gjalddagi er gott viðmið um hvenær þú ættir að greiða reikninginn, en það gerir ekkert til þó þú missir af honum. Gjalddagi er alltaf 20. hvers mánaðar.
- Eindagi er síðasti dagur til að greiða reikninginn áður en það leggjast dráttarvextir og mögulegur innheimtukostnaður á hann. Passaðu að greiða reikninginn fyrir eindaga til að forðast óþarfa aukakostnað!
- Fyrir einstaklinga er eindagi 2. næsta mánaðar eða næsti virki dagur.
- Hjá fyrirtækjum er eindagi alltaf 30. hvers mánaðar.
Nærðu ekki að greiða fyrir eindaga?
Hafðu samband við þjónustuverið okkar og við leysum málið saman!
Greiðsluleiðir
Við bjóðum upp á þrjár þægilegar leiðir til að greiða reikningana þína:
- Boðgreiðsla þar sem reikningurinn er greiddur sjálfvirkt með greiðslukorti og þú greiðir ekkert færslugjald af honum. Þú getur skráð þig í boðgreiðslur í Símaappinu.
- Beingreiðsla þar sem reikningurinn er greiddur með sjálfvirkri millifærslu af bankareikningnum þínum, en þú greiðir færslugjald við stofnun kröfu í bankanum. Þú getur skráð þig í beingreiðslur í heimabankanum þínum.
- Handvirk greiðsla í heimabanka er sígilda aðferðin. Krafa er stofnuð í heimabankanum þínum í byrjun hvers mánaðar og þú greiðir hana handvirkt þegar þér hentar. Færslugjald bætist við reikninginn við stofnun kröfu í bankanum.
Hvað er ég að borga fyrir?
Þú getur séð nákvæma sundurliðun á reikningunum þínum á þjónustuvefnum og í Símaappinu!
Reikningurinn er hærri en ég átti von á!
Algengustu ástæður fyrir óvæntri hækkun á reikningi er þegar þú bætir við þjónustu, leigir efni í Sjónvarpi Símans eða ferðast og notar farsímann í útlöndum. Kíktu á reikninginn þinn og athugaðu hvort það séu ekki einhver gjöld sem þú kannast við sem orsaka hækkunina.
Ef þú ert nýr viðskiptavinur, eða bættir við þjónustu í miðjum mánuði, gætir þú fengið reikning fyrir mánaðargjöldum frá og með deginum sem þjónustan var stofnuð ásamt mánuðinum á eftir á sama reikningnum.
Er villa á reikningnum?
Hafðu samband við þjónustuverið okkar ef þú sérð eitthvað á reikningnum þínum sem ætti ekki að vera þar. Við athugum málið og leiðréttum reikninginn ef mistök hafa átt sér stað.
Hvernig skrái ég mig í boðgreiðslur?
Skráning í boðgreiðslu er alfarið í sjálfsafgreiðslu. Þjónustuverið okkar getur ekki tekið við greiðslukortaupplýsingum í gegnum síma eða á netspjallinu.
Skráning fyrir einstaklinga
Þú getur skráð reikningana þína í boðgreiðslu í Símaappinu með því að fara inn í Aðgerðir -> Reikningar og skrá kortaupplýsingarnar þínar þar.
Skráning fyrir fyrirtæki
Til að skrá fyrirtæki í boðgreiðslu þarftu að skrá þig inn á þjónustuvefinn okkar.
- Veldu Skipulag -> Reikningar í boðgreiðslu efst á skjánum.
- Hakaðu við Skrá reikninga í boðgreiðslur.
- Fylltu út greiðsluupplýsingar og smelltu Vista.