Reikningar frá okkur eru alfarið á rafrænu formi og kröfur birtast í heimabankanum þínum um það bil viku eftir mánaðamót. Þú finnur afrit af reikningum á Þjónustuvefnum og í Símaappinu, en þú getur líka skráð netfangið þitt í Símaappinu til að fá afrit af reikningnum með tölvupósti í hverjum mánuði.
Mikilvægar dagsetningar
Dagsetningar á reikningum geta verið ruglandi, en hér er það sem þú þarft að hafa í huga:
- Útgáfudagur er dagsetningin sem reikingurinn er gefinn út, en ekki dagurinn sem krafan birtist í heimabankanum þínum. Öll notkun og gjöld eftir þessa dagsetningu birtast á reikningi eftir næstu mánaðamót. Ef þú leigir til dæmis bíómynd í Síminn Bíó þann 1. mars, þá kemur hún ekki fram á reikningi fyrr en í byrjun apríl.
- Gjalddagi er gott viðmið um hvenær þú ættir að greiða reikninginn, en það gerir ekkert til þó þú missir af honum. Gjalddagi er alltaf 20. hvers mánaðar.
- Eindagi er síðasti dagur til að greiða reikninginn áður en það leggjast dráttarvextir og mögulegur innheimtukostnaður á hann. Passaðu að greiða reikninginn fyrir eindaga til að forðast óþarfa aukakostnað!
- Fyrir einstaklinga er eindagi 2. næsta mánaðar eða næsti virki dagur.
- Hjá fyrirtækjum er eindagi alltaf 30. hvers mánaðar.
Innheimta
Ef reikningur er ógreiddur eftir eindaga fer hann í innheimtuferli með tilheyrandi kostnaði samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 133/2010. Á eftirfarandi skýringarmynd má sjá innheimtuferlið í heild, en allar dagsetningar miðast út frá eindaga reiknings:
Innheimtuferlið er hægt að brjóta niður í þrjár tegundir aðgerða: Viðvaranir, lokun þjónustu og loks lögfræðiinnheimtu.
Nærðu ekki að greiða fyrir eindaga?
Við bjóðum upp á ýmis greiðsluúrræði, hafðu samband við þjónustuverið okkar og við leysum málið saman!
Viðvaranir
Við sendum viðvaranir með tölvupósti á netfang og/eða bréfpósti á lögheimili einstaklinga, en fyrirtæki fá þær sendar með bréfpósti á skráð heimilisfang. Þú getur einnig fundið þessar viðvaranir í rafrænum skjölum í netbanka undir heitinu Síminn - Innheimtubréf.
Tveimur dögum eftir eindaga sendum við innheimtuviðvörun til að minna þig á ógreiddan reikning og fyrirbyggja kostnaðarsamar innheimtuaðgerðir. Ef reikningurinn er enn ógreiddur sendum við þrjár áminningar með milliinnheimtubréfi til að ítreka að reikningur sé enn ógreiddur.
28 dögum eftir eindaga fá einstaklingar SMS viðvörun um yfirvofandi lokun á þjónustu ef þau eru með skráð tengiliðanúmer. Fyrirtæki fá sömu viðvörun senda með bréfpósti.
Bæði innheimtuviðvörun og milliinnheimtubréf eru gjaldærð samkvæmt verðskrá.
Lokun þjónustu
Ef reikningur er enn ógreiddur eftir 33 daga er lokað fyrir allar ógreiddar þjónustur. Ógreiddir farsímar munu enn geta móttekið símtöl, en öll önnur þjónusta verður ónothæf. Þú getur haft samband við þjónustuverið til að opna aftur tímabundið fyrir þjónusturnar þínar gegn gjaldi samkvæmt verðskrá..
Ef reikningur er enn ógreiddur eftir 63 daga er lokað aftur fyrir allar þjónustur sem var opnað fyrir. Ógreiddir farsímar munu ekki geta hringt né móttekið símtöl.
Ef reikningur er ógreiddur eftir 76 daga er öll þjónusta aftengd varanlega. Til að endurvirkja þjónustuna þarf að greiða alla útistandandi reikninga og panta hana aftur, eins og um nýja þjónustu væri að ræða.
Lögfræðinnheimta
Ef reikningur er ógreiddur eftir 81 dag er hann sendur í innheimtu hjá þriðja aðila. Aðkomu Símans lýkur þar með og þú þarft að gera skuldina upp við innheimtuaðilann.
Greiðsluleiðir
Við bjóðum upp á þrjár þægilegar leiðir til að greiða reikningana þína:
- Boðgreiðsla þar sem reikningurinn er greiddur sjálfvirkt með greiðslukorti og þú greiðir ekkert færslugjald af honum. Þú getur skráð þig í boðgreiðslur í Símaappinu.
- Beingreiðsla þar sem reikningurinn er greiddur með sjálfvirkri millifærslu af bankareikningnum þínum, en þú greiðir færslugjald við stofnun kröfu í bankanum. Þú getur skráð þig í beingreiðslur í heimabankanum þínum.
- Handvirk greiðsla í heimabanka er sígilda aðferðin. Krafa er stofnuð í heimabankanum þínum í byrjun hvers mánaðar og þú greiðir hana handvirkt þegar þér hentar. Færslugjald bætist við reikninginn við stofnun kröfu í bankanum.
Hvað er ég að borga fyrir?
Þú getur séð nákvæma sundurliðun á reikningunum þínum á þjónustuvefnum og í Símaappinu!
Reikningurinn er hærri en ég átti von á!
Algengustu ástæður fyrir óvæntri hækkun á reikningi er þegar þú bætir við þjónustu, leigir efni í Sjónvarpi Símans eða ferðast og notar farsímann í útlöndum. Kíktu á reikninginn þinn og athugaðu hvort það séu ekki einhver gjöld sem þú kannast við sem orsaka hækkunina.
Ef þú ert nýr viðskiptavinur, eða bættir við þjónustu í miðjum mánuði, gætir þú fengið reikning fyrir mánaðargjöldum frá og með deginum sem þjónustan var stofnuð ásamt næsta mánuði á sama reikningnum.
Er villa á reikningnum?
Hafðu samband við þjónustuverið okkar ef þú sérð eitthvað á reikningnum þínum sem ætti ekki að vera þar. Við athugum málið og leiðréttum reikninginn ef mistök hafa átt sér stað.
Hvernig skrái ég mig í boðgreiðslur?
Skráning í boðgreiðslu er alfarið í sjálfsafgreiðslu. Þjónustuverið okkar getur ekki tekið við greiðslukortaupplýsingum í gegnum síma eða á netspjallinu.
Skráning fyrir einstaklinga
Þú getur skráð reikningana þína í boðgreiðslu í Símaappinu með því að fara inn í Aðgerðir -> Reikningar og skrá kortaupplýsingarnar þínar þar.
Skráning fyrir fyrirtæki
Til að skrá fyrirtæki í boðgreiðslu þarftu að skrá þig inn á þjónustuvefinn okkar.
- Veldu Skipulag -> Reikningar í boðgreiðslu efst á skjánum.
- Hakaðu við Skrá reikninga í boðgreiðslur.
- Fylltu út greiðsluupplýsingar og smelltu Vista.