SIM og eSIM

SIM kort er nauðsynlegur hluti af símanum þínum sem geymir upplýsingar til að auðkenna símanúmerið þitt á farsímakerfinu. Þó þú fáir þér nýjan síma getur þú alltaf verið með sama símanúmerið með því að færa SIM kortið þitt á milli tækja.

Í dag eru til tvær megintegundir SIM korta:

  • Hefðbundin SIM kort eru plast spjöld með örflögu sem geymir allar upplýsingar sem þarf til að auðkenna símanúmerið þitt.
  • eSIM kort eru innbyggð í tækið þitt og virkjuð með QR kóða eða hlekk á vef.

eSIM

eSIM eru innbyggð SIM kort sem finnast í flestum nýlegum snjalltækjum og gera okkur kleift að auðkenna símanúmerið rafrænt í stað þess að nota SIM kort úr plasti. 

eSIM eru framtíð SIM korta og munu á endanum taka alfarið við plast kortunum þegar framleiðendur farsíma hætta að gera ráð fyrir þeim í tækjunum sínum. Sú þróun mun auðvitað taka sinn tíma, en í millitíðinni eru ýmsar ástæður til að nota eSIM frekar en hefðbundið plast SIM kort:

  • Þú getur ekki týnt eSIM kortinu, það er hluti af símanum þínum.
  • Þú getur flutt á milli fjarskiptafyrirtækja án þess að sækja nýtt SIM kort.
  • Þú getur verið tvö símanúmer í einum síma t.d. tvö eSIM kort eða eitt eSIM og eitt plast SIM kort.
  • Þau eru umhverfisvænni! Ekki þarf að fjöldaframleiða SIM kort úr plasti lengur.

Rafræn skilríki og eSIM

Hefðbundin rafræn skilríki eru vistuð í geymslu á SIM kortinu þínu og virka ekki með eSIM tækninni. Við mælum með að setja upp Auðkennisappið áður en þú færir símanúmerið þitt af plast SIM korti yfir í eSIM.

Hvernig breyti ég í eSIM?

Hafðu samband við þjónustuverið okkar og við getum fært áskriftina þína yfir á eSIM númer. Í kjölfarið sendum við þér póst með hlekk og QR kóða sem þú notar til að virkja áskriftina á eSIM kortinu í tækinu þínu.

Þú getur líka auðvitað mætt í næstu verslun Símans og við munum aðstoða þig við að setja upp eSIM í símanum þínum!

Hefðbundið SIM

Hefðbundin SIM kort eru plast kort með örflögu sem geymir upplýsingar um símanúmerið þitt. Örflagan getur einnig geymt tengiliðaskrá, en geymsluplássið á henni er mjög takmarkað og því mælum við frekar með að nota skýjaþjónustu til að samstilla tengiliðina þína á milli tækja. Ef þú ert með gamaldags takkasíma getur þú notað geymsluna á SIM kortinu til að geyma tengiliðina þína.

Hvernig fæ ég SIM kort?

Ef þú ert með farsímaáskrift hjá Símanum getur þú fengið nýtt SIM kort í verslunum okkar og á þjónustustöðum um allt land. Þú getur líka haft samband við þjónustuverið okkar og við skráum kort fyrir þig og sendum þér það í pósti!

PIN og PUK númer

Hvort sem þú ert með eSIM eða plast SIM kort fylgja því PIN og PUK sem eru öryggiskóðar til að vernda SIM kortið þitt:

PIN (Personal Identification Number)

PIN er 4 stafa öryggiskóði til að læsa SIM kortinu þínu, en þar sem flestir símar í dag eru með skjálæsingu er PIN læsingin ekki jafn mikilvæg og áður. Hún getur þó verið gagnleg ef einhver reynir að setja SIM kortið þitt í annan síma.

Ef þú slærð rangt PIN inn þrisvar sinnum læstist kortið og þú þarft að nota PUK númerið til að aflæsa því. Þú getur breytt PIN númerinu eða slökkt algjörlega á þessari læsingu í stillingum símans.

PUK (Personal Unlocking Key)

PUK er 8 stafa númer sem er notað til að opna SIM kortið ef það er læst eftir of margar rangar PIN tilraunir.

Þú hefur 10 tilraunir til að slá inn rétt PUK, en eftir 10 rangar tilraunir verður SIM kortið þitt ónothæft. Þú getur nálgast PUK kóðann þinn á þjónustuvefnum eða með því að hafa samband við þjónustuverið.