WiFi er þráðlaus nettækni sem gerir tækjunum þínum kleift að tengjast netinu án snúru. WiFi notar útvarpsbylgjur sem ferðast á milli netbeinis og tækja, sem gerir þér kleift að tengjast netinu hvar sem er innan drægni netbeinisins. WiFi hentar sérstaklega vel fyrir fartölvur, síma, spjaldtölvur og önnur tæki sem sem þurfa að geta tengst netinu án þess að vera bundin við ákveðna staðsetningu.
Að tengjast WiFi
Í fyrsta sinn sem þú tengir tækið þitt við netbeini með WiFi þarftu að auðkenna það. Í flestum tilfellum er það gert með lykilorði, en í sumum tækjum er líka hægt að nota WPS eða QR kóða til að tengjast WiFi.
Netbeinar Símans
Á öllum netbeinunum okkar finnur þú bæði WiFi nafn og lykilorð prentað á límmiða aftan á eða undir netbeininum.
Tengjast með lykilorði
- Opnaðu WiFi stillingar í tækinu þínu.
- Veldu WiFi nafnið sem tilheyrir netbeininum þínum.
- Sláðu inn lykilorðið.
Tengjast með WPS
- Settu tækið þitt í WPS pörunarham. Athugaðu leiðbeiningarnar sem fylgdu tækinu ef þig vantar aðstoð.
- Settu netbeininn í WPS pörunarham með því að ýta á WPS takkann þar til ljósið fer að blikka.
- Hinkraðu í nokkrar sekúndur á meðan tækin para sig saman.
Tengjast með QR kóða
- Skannaðu QR kóðann á límmiðanum aftan á eða undir netbeininum með tækinu þínu.
- Fylgdu leiðbeiningunum í tækinu þínu til að tengjast netinu.
Betra WiFi
Staðsetning skiptir öllu máli til að hámarka hraðann og drægnina á WiFi netinu þínu. Staðsettu netbeininn í opnu rými á miðju heimilinu, ekki fela hann inni í skáp eða á bakvið sjónvarpið og hafðu hann að minnsta kosti meter frá gólfinu.
Ef símainntak eða ljósleiðarabox er á erfiðum stað (t.d. í bílskúr eða kjallara) mælum við með að nota lengri netsnúru til að tengja netbeininn á betri stað. Einnig er hægt að fá rafvirkja til draga netsnúru frá inntakinu í tengil á heppilegri stað eða jafnvel færa inntakið alfarið. Hafðu samband við þjónustuverið okkar ef þú vilt bóka tæknimann, en þú getur einnig fundið sjálfstæðan verktaka á heimasíðu Samtaka Rafverktaka.
Hvernig er best að snúa netbeininum?
Loftnetin innan í netbeininum beinast út um framhliðina á honum þar sem LED ljósin eru. Ef framhliðin snýr að vegg eða niður í gólf mun netbeinirinn eiga mun erfiðara með að senda út stöðugt WiFi merki.
Umhverfisþættir og truflanavaldar
Ýmsir hlutir umhverfis netbeininn geta haft neikv;[ áhrif á WiFi gæðin. Helst má þar nefna:
- Þykka veggi og stór húsgögn
- Yfirborð úr málmi og spegla.
- Önnur raftæki, sérstaklega þau sem varpa bylgjum eins og örbylgjuofnar og þráðlausir símar.
- Stórir vatnsmassar eins og fiskabúr eða vatnshitarar.
Netsnúran er alltaf áreiðanlegust
Þó WiFi sé frábær lausn þá er alltaf betri kostur að tengja tölvur, snjallsjónvörp og önnur tæki sem eru alltaf á sínum stað með netsnúru. Helstu kostir þess að vera snúrutengdur eru:
- Meiri hraði.
- Stöðugari tenging.
- Meira rými á WiFi netinu fyrir önnur tæki.
Netsnúrur fást í flestum raftækjaverslunum og styttri snúrur fylgja með netbeinum og mögnurum frá okkur. Þegar skipt er um netbeini eða magnara skal alltaf skipta um snúru í leiðinni, þar sem úreltar snúrur geta takmarkað hraðann á netinu og valdið óstöðugleika.
WiFi Magnarar
Ef þú býrð í húsi eða stórri íbúð getur verið að WiFi merkið frá netbeininum sé ekki nógu öflugt til að ná inn í öll herbergi eða á milli hæða. Í slíkum tilfellum er WiFi Magnari frábær lausn til að dreifa netsambandinu um allt heimilið, en það fylgir einn ókeypis WiFi Magnari með öllum nettengingum hjá okkur!
Hvar á ég að setja WiFi Magnarann?
Upplögð staðsetning WiFi Magnara fer eftir hvort þú tengir hann þráðlaust við netbeininn eða með netsnúru.
Ef magnarinn er tengdur þráðlaust þarf hann að vera í WiFi sambandi við netbeininn, þannig að best væri að staðsetja hann einhversstaðar á milli netbeinis og herbergjana sem ná ekki góðu WiFi sambandi. Yfir lengri vegalengdir getur þú tengt tvo eða fleiri WiFi magnara þráðlaust í keðju til að hámarka netsambandið.
Ef magnarinn er tengdur með netsnúru getur þú haft hann eins langt frá netbeininum og þú vilt, svo lengi sem snúran drífur. Í sumum tilfellum er besta lausnin að draga netsnúrur í gegnum innanhússlagnir til að setja WiFi magnara upp á erfiðari stöðum eins og í kjallara eða bílskúr. Við mælum með því að tengja WiFi Magnara með snúru þar sem það er hægt til að hámarka hraða og stöðugleika þráðlausa netsins.
Algeng vandamál
Flest vandamál sem koma upp á WiFi má rekja til vandamála við uppsetningu eða villu í netbeini eða tækjum sem eru að tengjast honum.
Netbeinar Símans
Þú getur fundið leiðbeiningar fyrir netbeinana okkar hér á vefnum.
Tæki geta ekki tengst WiFi
Ef tækið þitt nær ekki að tengjast WiFi yfir höfuð er það oftast vegna villu í netbeininum eða tækinu sjálfu:
- Ef WiFi netið kemur ekki upp í listanum gæti verið að slökkt sé á WiFi í netbeininum. Þú getur fundið hvernig þú kveikir og slekkur á WiFi í leiðbeiningum netbeinisins.
- Ef eitt tæki nær ekki að tengjast er vandamálið líklega í tækinu sjálfu. Prófaðu að endurræsa tækið og reyndu aftur.
- Ef ekkert tæki nær að tengjast bendir það til villu í netbeininum. Endurræstu netbeini og WiFi Magnara eða endurstilltu þau eftir leiðbeiningum.
WiFi netið er hægt
Hægagangur á WiFi bendir oftast til þess að tækið þitt nái ekki nógu sterku sambandi eða eitthvað annað tæki er að ofhlaða WiFi netið. Prófaðu að taka hraðapróf í tveimur mismunandi tækjum á WiFi og berðu niðurstöðurnar saman:
- Ef tækið þitt nær ekki fullum WiFi styrk skaltu fylgja ráðunum í "Betra WiFi" kaflanum hér fyrir ofan og prófa að setja upp WiFi Magnara.
- Ef eitt tæki fær hægt net á fullum WiFi styrk bendir það til vandamáls með tækið sjálft. Prófaðu að endurræsa það og íhugaðu að tengja það frekar með netsnúru ef það er mögulegt.
- Ef mörg tæki fá hægt net á fullum WiFi styrk er eitthvað að netbeininum eða eitthvað annað tæki er að teppa netumferð. Prófaðu að endurræsa netbeini og WiFi Magnara eða endurstilltu þau eftir leiðbeiningum. Þú getur líka prófað að aftengja önnur tæki af netinu til að sjá hvort eitthvert þeirra sé að teppa netumferð og draga úr WiFi hraðanum.
Er vandamálið enn til staðar?
Ef þú átt í vanda með netið sem lagast ekki við endurræsingu getur þú alltaf haft samband við þjónustuverið okkar!