Netglæpum hefur fjölgað og óprúttnir aðilar sem oft eru hluti af skipulagðri glæpastarfsemi reyna allt til að komast yfir fjármuni okkar og persónuupplýsingar. Ein algengasta leiðin eru veiði- og svikapóstar þar sem siglt er undir fölsku flaggi og svikahrappar senda í nafni traustra fyrirtækja og fjármálastofnana. Þessir tölvupóstar geta verið á ensku sem og íslensku og ekkert okkar er óhult við að fá slíka pósta.
En með nokkrum einföldum ráðum er hægt að sjá hvort við getum treyst tölvupóstum sem til okkar berast.
Áríðandi tölvupóstur
Svikapóstar segja oft að mikilvægt sé að bregðast hratt við því annars muni þjónustu verða lokað, reikningur sé ógreiddur eða pakki ekki afhentur. Allt slíkt ætti að kveikja hjá okkur viðvörunarljós.
Innsláttar- og málfræðivillur
Flest íslensk fyrirtæki eru fagleg og vilja tala fallega og rétta íslensku. Innsláttar- og málfræðivillur, einkennileg orðanotkun og notkun orða sem ekki eru til benda til þess að líklega sé um ruslpóst að ræða.
Grunsamlegur sendandi
Skoðaðu netfang sendanda vel. Svikahrapparnir nota oft netföng sem eru lík en þó ekki alveg eins. Skoðaðu hvort innsláttarvilla eða aukastafir séu í netfanginu. Síminn sendir t.d. aldrei tölvupósta nema frá @siminn.is netföngum.
Ekki smella á tengla
Það er hættulaust að opna og lesa tölvupósta en ekki gera neitt annað nema að vel athuguðu máli. Hægt er að láta músarbendil yfir tengla og þá sést hvert hann vísar. Þá þarf að skoða vel þá slóð og meta hvort hún vísi á réttan stað.
Ekki opna viðhengi
Svikapóstar geta innihaldið viðhengi sem líta eðlilega út en eru í raun úlfur í sauðagæru. Þar geta leynst alls konar óværur og vírusar sem geta valdið skaða. Ekki opna nein viðhengi nema þú eigir von á þeim, annars er betra að sleppa því.
Ef þú færð svikapóst
Eyddu honum bara og njóttu dagsins! Ef svikapóstur kemur í nafni fyrirtækis getur verið gott að láta það fyrirtæki vita að svikahrappar séu að misnota vörumerki þess. Í mörgum tölvupóstforritum er hægt að tilkynna ruslpósta, það hjálpar sjálfvirkum síum að stöðva þá.