Sagemcom F5359

Sagemcom F5359 er einfaldur og öflugur WiFi 6 netbeinir fyrir ljósleiðara eða DSL tengingar sem styður nethraða allt upp að 1 gígabiti á sekúndu.

Að tengja beininn

Það er einfalt að tengja netbeininn, en helsta atriðið er að staðsetja hann. Netbeinirinn þarf að tengjast við símainntak eða ljósleiðarabox með snúru, en reyndu að koma honum fyrir þannig að hann geti sent út þráðlaust net hindranalaust. Þú getur kynnt þér hvernig þú hámarkar hraða og drægni á WiFi hér.

Tengja við ljósleiðara

  • Tengdu netsnúru í rauða tengið aftan á netbeininum merkt WAN og hinn endann í ljósleiðaraboxið í tengi merkt LAN 1 eða Ethernet 1.
  • Tengdu straumbreytinn í tengið merkt Power og settu hann í samband við rafmagn.
  • Ýttu á hvíta aflrofann aftan á beininum til að kveikja á honum.

Tengja við VDSL / ADSL tengingu

  • Tengið símasnúru við gráa tengið merkt DSL aftan á netbeininum og hinn endan í símatengi í vegg.
  • Tengdu straumbreytinn í tengið merkt Power og settu hann í samband við rafmagn.
  •  Ýttu á hvíta aflrofann aftan á beininum til að kveikja á honum.

Stöðuljósin á netbeininum

Framan á netbeininum eru fimm ljós sem segja til um stöðu hans. Undir venjulegum kringumstæðum ættu öll ljósin að verða græn skömmu eftir að netbeinirinn er settur í gang.


Ljós Skýring
Rafmagn Beinir er í gangi
Sync Samband við ljósleiðarabox eða símstöð
WiFi Kveikt á WiFi
Internet Samband við internetið
Heimasími Heimasími virkur á beini

Hvað varð um ljósin?

Netbeinirinn slekkur á stöðuljósunum tveimur mínútum eftir að eðlilegt samband kemst á. Þú getur kveikt aftur á ljósunum í smá stund með því að ýta örstutt á WPS takkann á hlið netbeinisins.

Tengja heimasíma

Þú tengir heimasímann beint við netbeininn í grænu tengin merkt Phone 1 eða Phone 2. Tengdu símann beint við netbeininn, ekki hafa nein millistykki eins og smásíu eða splitter á þeirra.

Tengja önnur tæki

Þú getur tengt tæki eins og tölvur, snjallsíma og sjónvörp við netið með snúru eða WiFi, en beinirinn býður upp á þrjár leiðir til að tengjast við WiFi; hefðbundið nafn og lykilorð, WPS eða QR kóða. Við mælum þó með að snúrutengja stærri tæki eins og tölvur og snjallsjónvörp þegar þú getur, því þannig færðu hraðasta og stöðugasta netsambandið.

Tengjast með snúru

Til að snúrutengja tæki við netbeininn þarftu einfaldlega að tengja netsnúru úr tækinu þínu yfir í eitt af gulu Ethernet tengjunum aftan á netbeininum. Gulu tengin eru öll jafngild, það skiptir engu máli hvert þeirra þú notar.

Tengjast WiFi með nafni og lykilorði

Til að tengjast WiFi þarftu að fara í WiFi stillingarnar í tækinu þínu, finna WiFi netið þitt og setja inn lykilorðið til að tengjast.

  • Þú finnur nafn og lykilorð þráðlausa netsins á miða aftan á netbeininum.
  • WiFi nafnið er merkt Name.
  • Lykilorðið er merkt Password og er 10 stafa blanda af tölustöfum og hástöfum. 

Tengjast WiFi með WPS

Með WPS getur þú tengt tæki á WiFi án þess að nota lykilorðið. Netbeinirinn er þá settur í pörunarham og samþykkir tengingu frá fyrsta tæki sem reynir að tengjast við hann.

  • Ýttu á WPS takkann á vinstri hlið beinisins og haltu honum inn í 5 sekúndur.
  • WiFi ljósið á beininum byrjar að blikka appelsínugult þegar hann er kominn í pörunarham.
  • Næsta skref fer eftir hvernig tæki þú ert að reyna að tengja:
    • Ef þú ert að tengja tölvu eða snjalltæki þarftu að fara inn í WiFi stillingarnar og tengjast þar.
    • Ef tækið er ekki með skjá ætti að vera svipaður WPS takki á því til að setja það í pörunarham. 
  • Eftir smá stund ættu tækið þitt og netbeinirinn að finna hvort annað og tengjast.
  • WiFi ljósið á netbeininum verður aftur grænt í kjölfarið og þú ættir að fá einhverskonar merki frá tækinu þínu um að tenging hafi tekist.

Tengjast WiFi með QR kóða

Flest nýleg snjalltæki sem eru með myndavél geta tengst WiFi með því að skanna QR kóða.

  • Opnaðu myndavélina eða QR skanna app í tækinu þínu.
    • Í sumum tækjum þarftu að fara inn í WiFi stillingarnar og velja að tengjast með QR kóða.
  • Beindu myndavélinni að QR kóðanum sem er prentaður á límmiða aftan á netbeininum.
  • Fylgdu leiðbeiningunum í tækinu þínu til að tengjast netinu.

Ítarlegar stillingar

Þú getur farið inn á stillingasíðu beinisins og fínstillt hann að eftir þörfum, til dæmis breytt WiFi lykilorðinu þínu eða kveikt á foreldrastillingum.

  • Tengdu tölvu eða snjalltæki við netbeininn, helst með snúru.
  • Opnaðu netvafra í tengda tækinu og farðu inn á slóðina http://192.168.1.254/.
  • Hér þarftu að skrá þig inn með eftirfarandi upplýsingum:
    • Í User reitinn skaltu skrifa admin í lágstöfum.
    • Í Password þarftu að skrifa lykilorð sem er prentað aftan á netbeininn og merkt Access key.
  • Ýttu loks á LOGIN takkann.

Áður en þú heldur áfram!

Breytingar sem þú gerir á stillingum netbeinisins eru alfarið á þinni ábyrgð. Við mælum ekki með að breyta þeim nema þú hafir sérstaka ástæðu til.

Breyta nafni og lykilorði á WiFi

Til að komast í stillingar fyrir WiFi skaltu smella á tannhjólið í efra horni annars hvort WiFi dálksins í aðalvalmyndinni.

Þar finnur þú eftirfarandi stillingar sem þú getur uppfært:

  • Enable 5GHz Wireless hakið leyfir þér að kveikja og slökkva á 5GHz tíðninni.
  • Status segir til um stöðu WiFi netsins.
  • Channel Selection leyfir þér að velja WiFi rás. Í nánast öllum tilfellum er best að hafa þetta á AUTO.
    • Þessi stilling getur gert WiFi netið óaðgengilegt. Ef þú þarft að breyta henni mælum við með að gera það í tæki sem er snúrutengt við netbeininn.
  • Security er dulkóðunarstaðallinn sem WiFi netið notar.
  • Password er lykilorðið til að komast inn á WiFi.

Mundu að ýta á Apply til að vista breytingar á stillingunum.

Foreldrastilling - Tímastýring tækja

Með tímastýringu getur þú takmarkað netaðgang ákveðinna tækja á ákveðnum tímum dags. Veldu Parental Control skjöldinn í aðalvalmyndinni til að fá upp stjórnborðið fyrir tímastýringu.

Hér getur valið tækið sem á að stýra með því að haka við það í listanum undir Internet access control planning. Þá getur þú stillt tímana sem tækið má tengjast netinu með því að smella á stikurnar neðar í glugganum. Grænt á stikunni þýðir að tækið megi tengjast netinu, en rautt þýðir að því sé bannað.

MAC vistföng

Foreldrastýring netbeinisins notar MAC vistföng til að greina á milli tækja. Flest tæki eru með eitt fast MAC vistfang, en sum nýrri tæki skipta reglulega um MAC vistföng og gætu þannig komist fram hjá foreldrastýringunni.

Foreldrastilling - Loka fyrir vefsíður

Þú getur lokað fyrir tilteknar vefsíður með því að bæta þeim á bannlista í stillingum netbeinisins. Veldu Parental Control skjöldinn í aðalvalmyndinni og svo URL Filter flipann til að fá upp stjórnborðið fyrir bannlistann.

Þar getur þú bætt síðum á listann með því að ýta á Add Address og slá inn vefslóð undir Internet Link. Ýttu að lokum á Apply takkann til að vista stillingarnar.

PPPoE auðkenning

Venjulega notar netbeinirinn DHCP til að fá IP tölu úthlutað sjálfkrafa, en þú getur stillt hann á að nota PPPoE auðkenningu ef þú vilt vera með fasta IP tölu eða ert að tengjast við staðarnet.

  • Veldu Internet Connectivity í aðalvalmyndin
  • Breyttu WAN Addressing Type í PPP.
  • Skrifaðu siminn í bæði Login og Password reitina 
    • Ef þú ert að tengjast við staðarnet þarftu að nota upplýsingar frá kerfisstjóra hér.
  • Ýttu á Apply.

Netbeinirinn mun missa netsamband í nokkrar sekúndur á meðan hann tengist aftur á nýju auðkenningunni. Til að afturkalla þessar stillingar er nóg að breyta WAN Addressing Type aftur í DHCP og ýta á Apply.

Breyta nafnaþjónum (DNS)

Venjulega nota netbeinarnir okkar nafnaþjóna Símans, en þú getur stillt hann til að nota hvaða nafnaþjón sem þú vilt.

  • Veldu Internet Connectivity í aðalvalmyndinni.
  • Ýttu á DNS IPv4 takkann.
  • Breyttu DNS stillingunni í Manually Specify DNS.
  • Fylltu út IP tölur nafnaþjónanna sem þú vilt nota.
  • Ýttu á Apply.

Ertu með Netvarann?
Netvarinn er háður nafnaþjónum Símans og virkar ekki ef þú notar aðra nafnaþjóna.

Stillingar á portum (Port Forwarding)

Þessar stillingar geta valdið skaða!
Að opna port hleypir allri umferð af netinu inn á tækið þitt í gegnum það port. Síminn tekur enga ábyrgð á vandamálum, gagnatapi eða öðru sem getur komið upp vegna breytinga á þessum stillingum. Ekki breyta þeim án þess að kynna þér málið vandlega og hafa góða ástæðu til.

Til að breyta stillingum porta skaltu velja Port Forwarding skjöldinn á í aðalvalmyndinni. Þar getur þú búið til nýja reglu til að opna port með því að fylla út eftirfarandi reiti.

  • Custom service name er valfrjálst heiti á reglunni, en við mælum með að hafa það lýsandi.
  • Protocol er samskiptamátinn sem þú vilt opna fyrir.
  • External host er IP tala á internetinu sem má eiga samskipti í gegnum portið.
  • External port er númer portsins sem þú vilt hleypa ytri umferð í gegnum.
  • Internal host er innri IP tala tækisins sem á að taka við netumferðinni.
  • Internal port er innra port tækisins sem á að taka við netumferðinni.

Ýttu að lokum á Apply takkann til að vista regluna.

Endurstilla netbeini (Factory reset)

Með því að endurstilla netbeininn hreinsar þú út allar stillingar og breytir þeim aftur í upprunaleg gildi. Það eru tvær leiðir til að núllstilla netbeininn; með RESET takkanum aftan á honum eða í gegnum stillingasíðuna. 

Til að endurstilla beininn með takkanum þarftu að ýta á RESET takkann fyrir ofan rafmagnsrofann aftan á netbeininum. Takkinn er felldur inn í beininn svo það sé ekki hægt að ýta á hann fyrir slysni, þannig að þú þarft pinna (til dæmis tannstöngul eða bréfaklemmu) til að ná í hann. Haltu takkanum inni í 15 sekúndur þar til ljósin á beininum breytast.

Til að endurstilla beininn í gegnum stillingaviðmótið getur þú fylgt þessum skrefum:

  • Veldu My Gateway í aðalvalmyndinni
  • Veldu Maintenance flipann. 
  • Ýttu á Reset takkann við hliðina á Factory Settings.

Hvora leiðina sem þú ferð, þá tekur það netbeininn nokkrar mínútur að endurstilla sig og endurræsa. Allar stillingar og lykilorð verða þá komin aftur í byrjunarstöður.