Aginet appið frá TP-Link

Aginet appið fyrir búnað frá TP-Link er einföld og notendavæn leið til að setja upp og stjórna netinu heima. Þú getur tengt ný tæki, sett upp foreldrastillingar og fengið viðvaranir og lausnir á ýmsum vandamálum í einu þægilegu viðmóti.

Aginet Appið er fáanlegt fyrir bæði iOS og Android tæki.  

Hvar næ ég í appið?

Þú getur sótt Aginet appið í Apple App Store eða Google Play Store.

TP-Link ID

Þegar þú opnar Aginet appið í fyrsta sinn færð þú boð um að skrá þig inn með TP-Link ID, sem er sameiginlegur aðgangur fyrir allar vörur og þjónustur frá TP-Link. Þú þarft ekki að stofna aðgang til að nota appið þegar þú ert heima hjá þér, en ef þú vilt tengjast netbeininum þegar þú ert að heiman þarftu að tengja bæði appið og netbeininn við TP-Link ID.

Breyta WiFi stillingum

Þú getur breytt lykilorði og nafni WiFi netsins með nokkrum smellum í appinu.

  • Veldu More flipann neðst í appinu.
  • Veldu Wi-Fi Settings.
  • Veldu WiFi netið sem þú vilt breyta.

Ertu ekki viss?

Við mælum með að breyta ekki stillingum netbeinisins nema þú hafir sérstaka ástæðu til.


  • Band Steering eða bandstýring leyfir netbeininum að færa tæki á milli Wi-Fi banda eftir hvar þau ná bestu sambandi.
  • Network Name er nafnið sem WiFi netið gefur upp þegar þú leitar að WiFi í tækinu þínu.
  • Password er lykilorðið sem þarf að slá inn til að tengjast WiFi netinu.
  • Security er dulkóðunarstaðallinn sem WiFi netið notar. 
  • Advanced inniheldur ítarlegri stillingar.

Til að vista breytingar á stillingum skaltu ýta á Save takkann í efra hægra horninu, en það gæti tekið nokkrar mínútur að uppfæra stillingarnar. Hafðu í huga að WiFi samband gæti dottið út í smá stund á meðan.

Þú gætir þurft að endurtengja

Ef þú breytir nafni eða lykilorði WiFi tengingarinnar missa öll tæki samband við WiFi. Þú þarft þá að endurtengja hvert tæki aftur með nýja nafninu eða lykilorðinu.

Foreldrastillingar

Aginet appið býður upp á öflug tól til að stýra og takmarka netnotkun tækja á heimilinu. Með foreldrastillingum getur þú búið til notanda fyrir hvern fjölskyldumeðlim og sett sameiginlegar reglur fyrir öll tækin þeirra, t.d. síma, spjaldtölvur eða leikjatölvur.

Búa til notanda

Þú getur búið til nýjan notanda í örfáum skrefum:

  • Veldu Family flipann neðst í appinu.
  • Veldu Create a Profile eða smelltu á plús merkið (+) í horninu.
  • Veldu aldursbil fyrir notandann, en það ákveður hvaða efni á netinu er lokað fyrir þennan notanda.
  • Veldu öll tækin sem tilheyra þessum notanda svo stillingarnar nái yfir þau öll.

Stilla aðgang notanda

Þegar þú hefur búið til notanda getur þú stillt takmarkanir á netnotkun þeirra á WiFi netinu þínu.

  • Undir Devices getur þú bætt við eða fjarlægt tæki sem tilheyra notandanum og skoðað notkun hvers tækis.
  • Filtered Content leyfir þér að stilla víðtækar síur fyrir óæskilegt efni á netinu.
  • Blocked Content leyfir þér að handvelja síður eða þjónustur sem þú vilt loka fyrir.
  • Með Bedtime getur þú lokað fyrir alla netnokun á ákveðnum tímum sólarhrings.
  • Time Limits leyfa þér að setja tímamörk um netnotkun á hverjum degi.

Loka á notanda

Þú getur lokað tímabundið fyrir netnotkun í öllum tækjum ákveðins notanda með tveimur smellum.

  • Smelltu á Family flipann neðst í appinu.
  • Ýttu á Block takkann við hliðina á nafni notandans sem þú vilt loka á. 
  • Takkinn breytist í Unblock þegar þú lokar á notandann og þú getur smellt á hann til að opna aftur fyrir netnotkun.

WiFi Magnarar

Þú getur notað Aginet appið til að para nýja WiFi Magnara við netið þitt og séð hversu góðu sambandi þeir ná. Þú getur líka séð hvaða WiFi sendi tækin á heimilinu eru að tengjast og hversu gott merkið er og yfirfarið að WiFi netið sé að virka sem best.

Tengja WiFi Magnara

Með Aginet appinu getur þú fengið skref-fyrir-skref leiðbeiningar um hvernig þú setur upp WiFi Magnarann þinn.

  • Veldu Network flipann neðst í appinu.
  • Smelltu á plús merkið (+) í horninu.
  • Veldu Add Agent.
  • Veldu Mesh Device.
  • Fylgdu leiðbeiningunum á skjánum til að setja upp WiFi Magnaran.

Skoða stöðu WiFi Magnara

Undir Network flipanum neðst í appinu getur þú séð stöðu netbeinisins og allra tækja sem eru tengd honum. Þar getur þú líka fylgst með hversu sterku sambandi tækin þín ná og hvort, hraðann á netsambandinu og IP tölur og MAC föng allra tækja á netinu þínu.

Aðrar stillingar

Undir More flipanum neðst í appinu finnur þú ýmsar aðrar stillingar:

  • Með Guest Network getur þú búið til auka WiFi fyrir gesti sem er aðskilið frá aðal netinu. Gestanetið er þá með sitt eigið nafn og lykilorð.
  • Undir Internet connection er hægt að breyta stillingum fyrir nettenginguna og sjá IP netbeinisins. Netbeinirinn er þegar stilltur á bestu stillingar fyrir net Símans þannig að þú ættir ekki að þurfa að breyta neinum stillingum hér.
  • Undir Block List er hægt að loka á ákveðin tæki eftir MAC númerum og útiloka þau frá netinu.
  • WPS gerir tækjum kleift að tengjast WiFi án lykilorðs. Hér getur þú slökkt eða kveikt á WPS virkninni og sett netbeininn í pörunarham. 
  • LED Control leyfir þér að slökkva eða kveikja á stöðuljósunum á netbeininum eða tímastilla svo þau séu slökkt á ákveðnum tíma dags.
  • Reboot Schedule leyfir þér að stilla tíma til að endurræsa netbeininn reglulega.
  • TP-Link ID Hér getur þú sýslað með TP Link ID og tengt netbeini við þinn TP Link aðgang.
  • Undir System getur þú endurræst eða núllstill netbeininn og skráð þig út úr appinu.

Fannstu ekki það sem þú leitaðir að?

Sumar stillingar (eins og stillingar á portum) eru aðeins aðgengilegar í vefviðmóti netbeinisins

Loka fyrir tæki (Block list)

Þú getur lokað alfarið fyrir ákveðin tæki til að hindra að þau geti tengst netinu eða öðrum tækjum á innra netinu þínu. Þessi stilling er ætluð til að útiloka tæki í lengri tíma; ef þú vilt loka til skemmri tíma mælum við með að nota frekar foreldrastillingarnar

  • Veld More flipann neðst í appinu.
  • Veldu Block List.
  • Ýttu á plúsinn (+) í efra-hægra horninu.
  • Skilgreindu tæki sem þú vilt loka fyrir:
    • Veldu Select Clients til að velja tæki sem hafa tengst netbeininum áður.
    • Veldu Add by MAC Address til að útiloka tæki út frá MAC númeri þeirra.

Opna fyrir tæki

Ef þú vilt hleypa útilokuðu tæki aftur inn á netið þitt þarftu að fjarlægja það af útilokunarlistanum.

  • Veldu More flipann neðst í appinu.
  • Veldu Block List.
  • Ýttu á tækið sem þú vilt opna á og haltu inni þar til Unblock valmöguleikinn kemur upp.
  • Ýttu á Unblock til að hleypa tækinu aftur á netið.