Sagemcom vefviðmót

Í gegnum vefviðmót netbeinisins er hægt að breyta flestum stillingum beinisins eins og t.d. WiFi nafni og lykilorði, stilla foreldrastýringu, opna port og festa innri IP tölu tækja.

Opna vefviðmótið

Til að komast inn á vefviðmótið þarftu að vera í beinu sambandi við netbeininn í gegnum netsnúru eða WiFi. 

  • Opnaðu slóðina http://192.168.1.254
  • Skrifaðu lykilorð netbeinisins inn í reitinn merktan Password og ýttu á Log in
    • Lykilorðið er prentað á límmiða bakcið netbeininn og er merkt sem Access key.

Áður en þú heldur áfram!

Breytingar sem þú gerir á stillingum netbeinisins eru alfarið á þinni ábyrgð. Við mælum ekki með að breyta þeim nema þú hafir sérstaka ástæðu til.

Breyta nafni og lykilorði á WiFi

Til að komast í stillingar fyrir WiFi skaltu smella á tannhjólið í efra horni annars hvort WiFi dálksins í aðalvalmyndinni.

Þar finnur þú eftirfarandi stillingar sem þú getur uppfært:

  • Enable 5GHz Wireless hakið leyfir þér að kveikja og slökkva á 5GHz tíðninni.
  • Status segir til um stöðu WiFi netsins.
  • SSID Leyfir þér að breyta WiFi nafninu, það er hak við hliðiná því sem segir "Visible", ef WiFi nafnið á að sjást skal haka í það.
  • Channel Selection leyfir þér að velja WiFi rás. Í nánast öllum tilfellum er best að hafa þetta á AUTO.
    • Þessi stilling getur gert WiFi netið óaðgengilegt. Ef þú þarft að breyta henni mælum við með að gera það í tæki sem er snúrutengt við netbeininn.
  • Security er dulkóðunarstaðallinn sem WiFi netið notar.
  • Password er lykilorðið til að komast inn á WiFi.

Mundu að ýta á Apply til að vista breytingar á stillingunum.

Aðskilja WiFi

  • Smelltu á tannhjólið hjá WiFi 5GHz
  • Smelltu á WiFi Mesh
  • Smelltu á Bandsteering & Roaming
  • Stilltu Bandsteering & Roaming á OFF
  • Smelltu á Apply
  • Smelltu á Basic
  • Bættu við _5GHz aftan við WiFi nafnið (Siminnxxxxxx_5GHz)
  • Smelltu á Apply

Virkja Gestanet

Til að komast í stillingar fyrir WiFi skaltu smella á tannhjólið í efra horni annars hvort "Guest Stations" dálksins fyrir neðan WiF í aðalvalmynd, veldu þá týðni sem þú vilt virkja.

  • Enable 2.4GHz Wireless / Enable 5GHz Wireless leyfir þér að kveikja og slökkva á gesta netinu.
  • SSID Leyfir þér að breyta WiFi nafninu fyrir gestanetið, það er hak við hliðiná því sem segir "Visible", ef WiFi nafnið á að sjást skal haka í það.
  • Password er lykilorðið til að komast inn á gestanetið
  • Smelltu á Apply

Foreldrastilling - Tímastýring tækja

Með tímastýringu getur þú takmarkað netaðgang ákveðinna tækja á ákveðnum tímum dags. Veldu Parental Control skjöldinn í aðalvalmyndinni til að fá upp stjórnborðið fyrir tímastýringu.

Hér getur valið tækið sem á að stýra með því að haka við það í listanum undir Internet access control planning. Þá getur þú stillt tímana sem tækið má tengjast netinu með því að smella á stikurnar neðar í glugganum. Grænt á stikunni þýðir að tækið megi tengjast netinu, en rautt þýðir að því sé bannað.

MAC vistföng

Foreldrastýring netbeinisins notar MAC vistföng til að greina á milli tækja. Flest tæki eru með eitt fast MAC vistfang, en sum nýrri tæki skipta reglulega um MAC vistföng og gætu þannig komist fram hjá foreldrastýringunni.

Foreldrastilling - Loka fyrir vefsíður

Þú getur lokað fyrir tilteknar vefsíður með því að bæta þeim á bannlista í stillingum netbeinisins. Veldu Parental Control skjöldinn í aðalvalmyndinni og svo URL Filter flipann til að fá upp stjórnborðið fyrir bannlistann. 

Þar getur þú bætt síðum á listann með því að ýta á Add Address og slá inn vefslóð undir Internet Link. Ýttu að lokum á Apply takkann til að vista stillingarnar.

PPPoE auðkenning

Venjulega notar netbeinirinn DHCP til að fá IP tölu úthlutað sjálfkrafa, en þú getur stillt hann á að nota PPPoE auðkenningu ef þú vilt vera með fasta IP tölu eða ert að tengjast við staðarnet.

  • Veldu Internet Connectivity í aðalvalmyndin
  • Breyttu WAN Addressing Type í PPP.
  • Skrifaðu siminn í bæði Login og Password reitina
    • Ef þú ert að tengjast við staðarnet þarftu að nota upplýsingar frá kerfisstjóra hér.
  • Ýttu á Apply.

Netbeinirinn mun missa netsamband í nokkrar sekúndur á meðan hann tengist aftur á nýju auðkenningunni. Til að afturkalla þessar stillingar er nóg að breyta WAN Addressing Type aftur í DHCP og ýta á Apply.

Breyta nafnaþjónum (DNS)

Venjulega nota netbeinarnir okkar nafnaþjóna Símans, en þú getur stillt hann til að nota hvaða nafnaþjón sem þú vilt.

  • Veldu Internet Connectivity í aðalvalmyndinni.
  • Ýttu á DNS IPv4 takkann.
  • Breyttu DNS stillingunni í Manually Specify DNS.
  • Fylltu út IP tölur nafnaþjónanna sem þú vilt nota.
  • Ýttu á Apply.

Ertu með Netvarann?
Netvarinn er háður nafnaþjónum Símans og virkar ekki ef þú notar aðra nafnaþjóna.

Stillingar á portum (Port Forwarding)

Þessar stillingar geta valdið skaða!
Að opna port hleypir allri umferð af netinu inn á tækið þitt í gegnum það port. Síminn tekur enga ábyrgð á vandamálum, gagnatapi eða öðru sem getur komið upp vegna breytinga á þessum stillingum. Ekki breyta þeim án þess að kynna þér málið vandlega og hafa góða ástæðu til.

Til að breyta stillingum porta skaltu velja Port Forwarding skjöldinn á í aðalvalmyndinni. Þar getur þú búið til nýja reglu til að opna port með því að fylla út eftirfarandi reiti.

  • Custom service name er valfrjálst heiti á reglunni, en við mælum með að hafa það lýsandi.
  • Protocol er samskiptamátinn sem þú vilt opna fyrir.
  • External host er IP tala á internetinu sem má eiga samskipti í gegnum portið.
  • External port er númer portsins sem þú vilt hleypa ytri umferð í gegnum.
  • Internal host er innri IP tala tækisins sem á að taka við netumferðinni.
  • Internal port er innra port tækisins sem á að taka við netumferðinni.

Ýttu að lokum á Apply takkann til að vista regluna.