Netbeinir (e. router) er tæki sem er tengt við netið í gegnum ljósleiðara eða símalínu og stýrir umferð á milli tækjanna þinna og ver tækin þín fyrir óviðkomandi aðgangi í gegnum internetið.
Staðsetning netbeinis
Eitt mikilvægasta atriðið við uppsetningu netbeinis er hvar hann er staðsettur. WiFi dregur illa gegnum veggi og gólf, sérstaklega í gegnum þéttari efni eins og steypu eða málma og önnur tæki í kringum netbeininn geta líka haft áhrif á gæði WiFi sambands.
Netbeinirinn þarf að vera snúrutengdur við ljósleiðarabox eða símatengi sem getur takmarkað mögulegar staðsetningar. Hafðu eftirfarandi í huga þegar þú velur stað fyrir beininn þinn:
- Hafðu beininn miðsvæðis á heimilinu til að hámarka drægni WiFi netsins.
- Hafðu beininn í um eins metra hæð frá gólfi.
- Hafðu beininn minnst hálfum metra frá öðrum stórum raftækjum.
- WiFi virkar best með skýra sjónlínu, ekki setja beininn í skúffur og skápa eða á bakvið sjónvarpið.
Ef þú finnur engan góðan stað innan færis við ljósleiðarabox eða símatengil getur þú fengið rafvirkja til að færa inntakið á betri stað eða notað WiFi Magnara til að dreifa þráðlausa netinu víðar.